Ama Dablam leiðangurinn 1998

Hér verður sögð ferðasaga af Klifurleiðangri 7 félaga úr Björgunarsveit Fiskakletts í Hafnarfirði á fjallið Ama Dablam 6856m. í Himalajafjallgarðinum.

 

Það er en á miklu að taka í þessari sögu, svo það gæti vel farið svo að það sem hér byrtist sé ekki endanleg útgáfa.

Ég ætlaði mér að búa til mína útgáfu af ferðasögu um þennann leiðangur, en það verður enþá einthver bið í að hún lítur dagsins ljós.  þangaðtil verður þessi pistil að nægja.  Hann er að mínu mati það áhugaverður að mörgum ætti ekki að leiðast að rena í gegnum hann.  en hér er að finna smá formála frá mér og svo tölvupóstinn sem við sendum frá okkur á vefsíðu leiðangursins.

I september og október árið 1998 fór ég ásamt 6 félögum mínum úr Björgunarsveit Fiskakletts í háfjallaleiðangur á fjallið Ama Dablam í Himalajafjöllunum.  Nánar tiltekið í Nepal.  Þessi ferð er mér í enn í huga.   Við vorum flestir ungir og frískir strákar uppfullir af fjallabakteríuni og það var ekkert sem gat stöðvað okkur í fjallaþránni á þessum tíma.

Það var raunar ekki ég sem átti hugmyndina, en ætli hún hafi ekki komið sem framhald af því að við félagarnir höfðum verið að stunda fjallamennsku á Íslandi og klifið flesta hæstu fjalatinda Íslands og farið í fjallaferðir til Chamonix í frönsku ölpunum.  Ofan á það að gengur þremur íslendingum mjög vel í leiðangri á Chu Oyu (8201m) stuttu áður og var sami hópur á leið í Everestleiðangur (8850m) Hefur undirbúningur þeirrar ferðar væntanlega haft talsverð áhrif á að við tókum okkar ákvörðun.

Undirbúningurinn var um það bil ár og nutum við þess mikið hve Everestförunum gekk vel í þeirra ferð,  bæði hvað umfjöllun varðar og ekki síður hve þeir voru tilbúnir til að liðsinna okkur við okkar ferð.  Við til að mynda notuðum sömu bresku ferðaskrifstofuna og þeir höfðu verið með,  við notuðum samskonar og stundum sama fjarskiptabúnað og Everestfaranir voru með t.d. með sama Imasat gervihnattasíma frá Landsíma Íslands og tölvutengibúnað og þeir höfðu með sér.

Styrktaraðilar voru nokkrir í þessum leiðangri og Sá stæðasti var Landsími Íslands og fékk því leiðangurinn heitið Landssímaleiðangurinn á Ama Dablam.   Landsími Íslands var ekki eini styrktaraðilinn.  Air Atlanta með Arngrím jóhansson forstjóra í broddi fylkingar sá okkur fyrir öllu flugi og flutningi á búnaði,  Þá höfðum var samstarf við 66°N um hönnun á nýrri fatalínu sem fékk Ama Dablam nafnið og við klæddumst fyrstu útgáfu þeirrar línu í leiðangrinum.  Við stunduðum Líkamsrækt hjá Líkamsræktarstöðinni Tecnosport í Hafnarfirði undir dyggri leiðsögn einkaþjálfarans Hreiðari Gíslasyni.   Ofan á það vorum við einnig duglegir við að stunda fjallamennsku að kappi líkt og við höfðum áður gert.   Þá voru einnig margir aðrir styrktaraðilar sem sáu okkur fyrir búnaði á góðum kjörum, meðal annars Skátabúðin sáluga á Snorrabrautinni og svo stóð félagið okkar,  Slysavarnarfélag Íslands dyggilega við bakið á okkur með allskonar liðleika.

Á þessum tíma var GSM tæknin rétt að ryðja sér rúms og Internetið var hægt og ekki á hverju strái þó það væri einnig að detta inn og fyrstu stafrænu ljósmyndavélarnar voru að líta dagsins ljós.  Við þurftum að vera með sérstakan nethýsisbúnað sem var hægt verulega á til þess að okkar hæga netsamband gegnum tölvur,gervihnetti, og fleira myndi skilast á endanum til Íslands.  Að fjarskiptabúnaðurinn myndi allur virka sem skyldi þar sem tíðar fréttir af leiðangrinum voru eitt af forsemdunum fyrir öllum styrktaraðilunum.   Svona tíðar fréttir voru fátíðar af leiðangrum fram að þessu, svo mér þótti rétt að halda utan um þær fréttur sem voru sendar frá okkur á meðan að á leiðangrinum stóð og er það sem birtist hér.

 

 

Hér á eftir fer bloggið sem skrifað var á heimasíðuna er var haldið úti í tengslum við leiðangurinn.

28. september 1998 04:07

Subject 27.09.1998

Við erum komnir til Kathmandu í Nepal.  Allt hefur gengið að óskum.  Við erum á mjög góðu hóteli og aðstaðan er framar vonum.  Meira að segja gengum við í gegnum tollinn án þess að lenda í vandræðum með þann búnað sem við erum með.  Við erum búnir að skoða okkur um í bænum.  Eftir verulega ágengd sölumanna og veikleika leiðangursmanna er hægt að mynda kvartett strengja- og blásturshljóðfæraleikara.  Hér snýst allt um ferðamenn og okkur kom á óvart hversu innfæddir eru vel að sér í ensku.  Meira segja sex ára krakkar tala mjög góða ensku þegar þau eru að betla þig um peninga og vilja þau helst erlendan gjaldeyrir.  Erum búnir að takast á við fyrstu kvöldmáltíðina og bíðum spenntir eftir hvað hún ber í skauti sér, því að það er mjög auðvelt, ef fólk passar sig ekki, að fá illa í magann.

Með kveðju

Landssímaleiðangurinn.

 

 

29. september 1998 07:21

Subject  Frá Landssímaleiðangrinum

Hæ hæ

Dagur tvö í Kathmandu, við leiðangursmenn notuðum daginn til þess að skoða höfuðborg Nepals, Nepalar eru einhverjir þeir gestrisnustu jarðarbúar sem til eru, þar er vestrænum ferðamönnum gert mjög hátt undir höfði.

Klukkan 7.30 þann 29.sept munum við fljúga með gamalli twin-Otter vél upp til fjallaþorpsins Lukla sem staðsett er í um 2800m hæð, flugleiðin mun liggja yfir töluvert hátt fjallaskarð þar sem ris flugvélarinnar mun skyndilega snúast upp i andhverfu sína og húrra niður í átt að flugvellinum Lukla.  Flugvöllurinn í Lukla er að margra mati sá hrikalegasti sem fyrir finnst, firir þær sakir að völlurinn er stuttur auk þess sem hann liggur upp á móti svo flugvélin geti numið staðar.  Þaðan tekur við gangan upp til Namche Bazar sem er höfuðstaður Sherpa menningarinnar.  Þar munum við halda áfram upp í Khumbu dalinn áleiðis upp að grunnbúðum Everest fjalls sem eru í um 5300m hæð.  Það er gert til þess að vera betur undirbúnir fyrir að kljást við fjallið sjálft.  Við munum brátt senda póst aftur.

Kveðja  Leiðangursmenn.

 

30. september 1998 01:48

Subject:  Frá Landssímaleiðangrinum 29.09.1998

Sæl Öllsömul

Af okkur eru það að frétt að við byrjuðum daginn snemma og vöknuðum um kl 5:00.  Við byrjuðum daginn á kjarngóðum morgunverði, sem samanstóð af 200gr nautasteik, bökuðum kartöflum og ostabrauðum.  Til gamans má geta að fyrir okkur alla kostaði þetta um 1400 íslenskar krónur.  Eftir morgunmatinn var haldið út á flugvöll.  Flugvöllurinn var vægast sagt öðruvísi en við eigum að venjast.  Þarna voru saman komin vestrænir ferðamenn og innfæddir ásamt ýmsum dýrategundum.  Innandyra ríkti öngþveiti og eina vopnið í þeirri baráttu var 5 dollara seðill sem kom okkur allstaðar í gegn.  Flugferðin til Lukla stóðst allar væntingar en þegar á flugvöllinn var komið fengu menn vægt taugaáfall þegar það kom í ljós að bakpokinn hans Árna hafði ekki komið með flugvélinni.  Fundum við það út að pokinn hafði komið með vélinni á undan.  Þetta hefði getað kostað okkur nokkra daga töf.  Nú erum við saddir í Phakding sem er mitt á milli Lukla og Namche Bazar.  Áætlun morgundagsins er að fara upp til Namche Bazar, þar sem við munum gista í um þrjár nætur til hæðaraðlögunar.  Allir eru hressir og kátir nema kannski Símon því hann hefur haft viðdvöl á öllum þeim klósettum sem á vegi okkar hafa verið.  En allt er þetta eins og best verður á kosið.

Við biðjum að heilsa heim og þið munuð heyra frá okkur fljótt aftur

Kveðja Leiðangursmenn.

 

2. október 1998 03:25

Subjegt:  Frá Landsímaleiðangrinum 01.10.1998

Hæ hæ

Við hófum gönguna til Namche Bazar um kl. 8:00 í gær.  Ferðin sóttist vel þar til við komum að hliðinu við Sagramatha þjóðgarðinn sem umliggur Everest svæðið, en þar lentum við í klukkutíma stappi við þjóðgarðsverði vopnaða fimm stimplum og einni vélbyssu.  Þetta leystist þó allt á farsælan hátt og við fengum leyfi til þess að fara inn í þjóðgarðinn.  Á leiðinni sáum við fjallið Thamserku (6808m) þar sem það reis rúmlega 4000m yfir höfðum okkar. Við eina af mörgum hengibrúm á leiðinni til Namche Bazar átti Sveinn fótum sínum fjör að launa þegar hann var að taka mynd af einum jakuxanum þar sem hann var að klöngrast niður brattar tröppur, þegar uxinn flaug á hausinn og Sveinn sá hann nálgat óðum í gegnum myndavélina.  Náði Sveinn með kvikum hreyfingum sínum að forða sér undan dýrinu.  Brekkan upp til Namche Bacar (3445m) reyndist mönnum léttari en áætlað hafði verið og komum við til Namche Bazar um klukkan eitt eftir fimm tíma ferðalag.

Í dag skoðuðum við hæðirnar í kringum Namche B.  en þó ekki án ævintýra.  Árni var á ferð á slóða nálægt flugvellinum í Syangboche(3760m) þegar hann varð næstum undir þyrlu sem hafði sig ekki á loft og sveimaði í átt að honum í um metra hæð og sá hann sinn kost vænstan að forða sér af slóðanum.  Þyrlan fór framhjá en lenti í sjálfheldu umkringd stórum steinum og varð að snúa við og finna sér nýja leið í svarta þoku og hvarf hún sjónum í skamma stund en birtist síðan og tók stefnuna á Árna sem forðaði sér á bak við stóran stein.  Lenti þyrlan síðan við hliðina á honum.  Hluti af leiðangursmönnum gengu upp að Everest hótelinu(3900m) og sáu menn þaðan í fyrsta skipti Ama Dablam í skamma stund er létti þokunni.  Af mönnum er það að frétta að Símon er orðinn hinn hressasti en Valli tekin við, með þó vægari afbrigði.  Til gamans má geta að á leið okkar hittum við nokkra Orego búa og um leið og þeir komust að því að við værum Íslendingar spurðu þeir strax hvort Keiko(Sigga) liði ekki vel.  Voru þeir ánægðir með að Keiko(Siggi) væri loksins kominn á heimaslóðir.

Við leiðangursmenn biðjum kærlega að heilsa heim og þökkum kærlega fyrir allar kveðjurnar sem okkur hafa verið sendar.  Við munum láta heyra frá okkur fljótlega aftur.

 

5. október 1998 19:40

Subject:  Frá Landsímaleiðangrinum. 05.10´ 1998

Hæ hæ

Jæja við látum nú heyra frá okkur eftir allanga bið.  Ástæðan er sú að við höfum verið á töluverðri hraðferð upp Kumbu dalinn, en nú erum við staddir í litlu þorpi sem heitir Pherche sem er rétt norðan við fjallið Ama Dablam í 4250m hæð.

Ferðin frá Namche Bazar gekk nokkuð vel og stöldruðum við við í Þorpinu Tyngboche vegna þess að veðrið lék okkur grátt, minnti þetta helst á Austfjarðaþokuna miklu(hellirigning og svarta þoka).  Þann 4 okt.  vöknuðum við í brakandi blíðu, sólskin og fjallasýn sem nánast kippti undan okkur fótunum, Ama Dablam þyrmdi yfir okkur og Mont Everest og Lhotse virtust aðeins spölkorn frá.  Ferðin frá Tyngboche upp til Pheriche gekk vonum framar og tók okkur um 3.5 tíma en héðan munum við leggja af stað upp til Þorpsins Lobuche sem er í 4930m hæð þaðan munum við ganga upp á Kala Patar sem er nokkurskonar útsýnisstaður yfir þau fjöll sem efst liggja í Khumbu dalnum.

Nú þegar við erum komnir í þessa hæð er veðurfarið farið að breytast, rakinn að minnka en kuldinn farinn að sækja að og þá skiptir nú miklu að vera í góðum fatnaði, fatnaðurinn sem 66° Norður lét okkur í té hefur í alla staði reynst mjög vel.

Einnig erum við þakklátir fyrir sérstakan tæknilegan ráðgjafa heima á Íslandi hann Ágúst í Tölvumiðlun, eins og við félagarnir höfum nefnt tæknitröllin (Technical Hulk of human kind).

Af okkur er annars allt gott að frétta, flestir við uxa heilsu fyrir utan þessa venjulegu magapest.

Jæja nú ætlum við að fara gæða okkur á enn einni eggjakássunni.

Kveðja Leiðangursmenn.

PS. Við minnum á heimasíðuna okkar www.simin.is/nepal

Við vorum að senda 2 myndir heim.

 

7. október 1998 14:26

Subject: Frá Landssímaleiðangrinum. 07.10‘ 1998

 

Hæ hæ

Við erum nú staddir í litlu þorpi sem heitir Lobuche og er í 4930m hæð.

Við komum hingað í gær eftir dágott kapphlaup við aðra sem voru á sömu leið til þess að fá sæmilega gistingu.  Eftir 2 klst. og 15 mínútna labb komum við hingað og kræktum okkur í gistingu í skárri skálanum hér í þorpinu.

Það var mikil kátína hjá okkur þegar við gengum inn í litla búð sem er í einu húsinu hér í þorpinu og fundum þar allskyns vestrænar munaðarvörur, þessar vörur koma frá leiðöngrum sem lokið hafa við atlögu sína við Everest.  Þarna fundum við danska skinku og að sjálfsögðu voru keyptar þær dósir sem til voru í búðinni.  Síðan var skinkunni að sjálfsögðu skolað niður með dönsku öli.

Við munum eiða deginum hér í Lobuche til aðlögunar, svo munum við halda upp á Kala Patar á morgun og vonandi hafa gott útsýni á Everest og öll hin glæsilegu fjöllin sem við höfum aðeins séð myndir af og lesið um í bókum.

Núna þegar þetta er skrifað liggjum við félagarnir hér úti á gamalli jökulurð með suðurhlíð Nuptse rétt innan seilingar, Símon var orðinn leiður á því að sitja og gera ekki neitt þannig að við horfðum undir iljarnar á honum eitthver upp á næsta hól og er hann nú staddur væntanlega í 5200m hæð ofan við Lobuche.  Í norðri sjáum við þrjá klifrara vera að ljúka við að klífa suðurhlíð Pumori.

Annars er allt gott að frétta af okkur þó svo að magakveisan illræmda hafi núna nappað fleiri Leiðangursmenn í ánauð sína. Eru nú aðeins tveir sem eftir eru Júlli og Svenni.

Kær kveðja frá Leiðangursmönnum í Lobuche

 

9. október 1998 17:38

Subject Frá Landssímaleiðangrinum 09.10‘98

Hæ hæ

Enn líða dagarnir sem við félagarnir notum til þess að rölta um Kumbu dalinn, í gær vöknuðum við kl. 05.00 og tókst okkur með eindæma ruddagangi að vekja alla sem voru í sama skála og við.  Við  lögðum af stað frá Lobuche áleiðis upp til Gorakshep um kl. 07.00, þangað vorum við komnir um kl 08:00 við stoppuðum aðeins til þess að skella í okkur einum bolla af te.  Þegar te drykkjunni lauk tók við gangan upp á Kala Patar (5545m hæð) þar slógu allri leiðangursmenn sín persónulegu hæðarmet.  Við eyddum dágóðri stund og virtum fyrir okkur það glæsilega útsýni sem þar er að hafa, Everest í návígi, suðurhlíð Pumori, vesturhlíð Nuptse og að sjálfsögðu Ama Dablam.  Eftir að menn höfðu tekið heilan helling af myndum héldum við aftur niður til Gorakshep þar sem við gerðum tilraun til þess að fá okkur hádegismat, það er nú ekki frásögu færandi því kartöflurétturinn sem Júlli og Svenni fengu var svo hryllilega skemmdur að það var engu lagi líkt. Og það allra besta var meðan að eigandi staðarins var að telja saman reikninginn stóð Svenni álengdar og frussaði kartöflunum út úr sér en allt kom fyrir ekki hann hikaði ekki við að rukka fyrir réttinn.  Við náðum nú reyndar að selja þessum ágæta menni hluta af rafmangsbúnaði leiðangursins að honum loknum fyrir níföld mánaðarlaun meðal Nepala.  Þegar smá þref um verð og gæði á rafmagnsbúnaðnum tók við gangan niður til Pheriche og var lækkunin um 1400m, þangað komnu við síðan um kl. 16.00 efir lengstu dagleið okkar hingað til.  Það að ferðast hér um Khumbu dalinn kennir okkur Íslendungum allmargt því menningin hér er ansi hreint frábrugðin því sem við eigum að venjast.  Hér eru öll hús hlaðin úr grjóti, þó er það með ólíkindum hversu vel flest húsin eru hlaðin miðað við það að allir steinarnir sem notaðir eru í byggingarnar hér eru höggnir til þannig að þeir raðist betur,  svo er innviðið í húsunum allt klætt með timbri sem borið er alla leið hingað upp eftir.  Maturinn sem hér er á boðstólum er alveg sér kapítuli, hann uppstendur af eggjum, núðlum, hrísgrjónum og Yak uxa kjöti, þetta er svo mallað allt á sömu pönnunni sem hituð er með Yak uxa taði sem gerir þennan hræðilega keim af öllum mat sem hér er eldaður.

Við erum nú í smá biðstöðu eftir að fá restina af búnaðinum okkar, þegar hann er kominn höldum við beinust leið upp í grunnbúðir Ama Dablam.

Látum heyra frá okkur þegar í grunnbúðir verður komið

Bestu kveðjur

Leiðangursmenn í Landssímaleiðangrinum.

 

13. október 1998 21:35

Subjegt:  Frá Landsímaleiðangrinum 13.10.98

Þá erum við loksins komnir í grunnbúðir.  Eftir að hafa sofið í Pheriche í tvær nætur héldum við niður til Pangboche þar sem við gistum í tvær nætur.  Þar hittum við leiðangurstjórann okkar Nick Keukos og fleiri góða náunga frá OTT.  Einnig var þar maður sem heitir Fabrizo sem átti að vera Nick til aðstoðar.  Þessi Fabrizio er mjög sterkur klifrari þó ungur sé aðeins 26 ára gamall.  Hann er á samning hjá þekktum fyrirtækjum sem hanna útivistarvörur þar sem hann er eins konar ráðgjafi.  Fyrirtæki sem hann er hjá heita til dæmis Berghaus, Bigback, Lowa skór og fleira.  En það fór ekki betur en 50 metrum frá Pangboche snéri hann sig á ökkla.  Þannig að hann var ógöngufær.   Ekki var vitað hvort að hann væri brotinn eða slitinn og löng vegalengd í næsta flugvöll þannig að það var ákveðið að biðja um þyrlu til að ná í hann.  Gátum við komið þar til aðstoðar með gervihnattasímanum sem við erum með frá Landsímanum og haft samband við herinn og þeir sendu þyrlu í morgun til að ná í Fabrizo.  Okkur þykir mjög leitt að hafa ekki fengið hann með því hann virkaði mjög vel á okkur, en í staðinn buðum við honum í vetur heim til Íslands í ísklifur sem honum leist mjög vel á.  En það sem gladdi okkur mjög mikið var það að Babu er með í þessari ferð svo að við þurfum ekki að hafa neinar áhyggjur en hann hefur verið með Everest tríóinu í tveimur ferðum er mjög traustur náungi.  Í gær komum við upp í grunnbúðir sem eru 4600 metra hæð.  Dagurinn var notaður í að koma þeim upp.  Það er ýmisleg sem þarf í svona búðir svo sem eldhústjald, tjald sem borðað er í, svefntjöld, birgðaraðstöðu því að það er ótrúlag margt sem fylgir svona leiðangri og að sjálfsögðu klóseti.

Við fengum búnaðinn sem við sendum á undan okkur og það þurfti að koma skipulagi á hann.  Eftir fyrstu skoðun sýndist okkur að allt sé með og þökkum við Flugfélaginu Air Atlanta fyrir traustan flutning á okkur sjáfum og búnaðinum.  Allur þessi búnaður var svo fluttur með jakuxum upp í fjöllin til okkar og var ég rétt í þessu að verja svefntjöldin okkar fyrir fjórum pirruðum uxum sem höfðu verið reknir inn í miðjar búðir.  Við erum fegnir að vera komnir í kjarngóðan mat hjá matreiðslumönnum okkar, en hér er maturinn mjög góður.  Maturinn ís skálunum hér í Khumbu dalnum er oft ekki upp á marga fiska og eldaður við mjög frumstæðar aðstæður.  Allt skipulag er mjög gott og það er allt til alls. Og eins hjá vönum Slysavarnarfólki er öryggið fremst.  Í morgun var vaknað snemma og eftir góðan morgunmat var lagt að stað á fjallið.  Þeir sem fóru voru Nick, Valli, Júlli, Örvar, Símon, Árni og einn laumufarþegi sem heitir Pálmi sem er einn af aðstoðarmönnunum.  En það var í lagi því að eftirlitsmaðurinn kemur ekki fyrr en á morgunn.  Svenni varð eftir til skrifa pistill og verja búðirnar gegn áhlaupi herskáa jakuxa.  Það sem strákarnir munu gera í dag er að byrja að koma upp fyrstu búðum sem verða í um það bil 5700 metra hæð.  Í þetta tóku þeir tjöld og ýmislegt af þungu klifurdóti.  Þeir munu koma aftur niður í kvöld og sofa í grunnbúðum.

 

15. október 1998 01:20

Subjegt:  Frá Landsímaleiðangrinum 14.10.98

Við vorum harmi slegnir þegar við fengum sorgarfréttirnar varðandi andlát frú Guðrúnar Katrínar Þorbergsdóttur forsetafrúar í morgun.  Við leiðangursmenn sendum forseta Íslands og fjölskyldu þeirra hjóna innilegar samúðarkveður.  Megi Guð styrkja ykkur á þessari sorgarstundu.

Leiðangursmenn komu saman í morgun við Íslenda fánann til að mynnast frá Guðrúnar Katrínar Þorbergsdóttur forsetafrúar með mínútu þögn. Og blakti Íslenski fáninn í hálfa stöng hér í grunnbúðum.

Við tókum þátt í athöfn sem haldin var af Sherpunum, hún heitir Puja.  Hún er mjög sérstök.  Það er reist súla sem hlaðið er í kringum með steinum.  Í steinum er lítið eldstæði þar sem að greni er brennt.  Í súluna er svo strengdar línur sem er með bænaflöggum.  Á flöggin eru skrifaðar buddabænir og Sherparnir trúa því að með bænirnar berist með vindinum til guðanna.  Alir sem taka þátt í leiðangrinum koma saman og taka þátt í athöfninni.  Þessi athöfn tekur í kringum klukkutíma.  Guðunum er færðar fórnir í matarkyns formi.  Þessi athöfn er haldin til að hafa guðina góða á meðan við erum að klífa fjallið.  Restin af deginum fór í að næra sig og gera búnaðinn kláran fyrir morgundaginn.  En þá er stefnt að því að fara upp í fyrstu búðir og sofa þar eina nótt

Það hafa komið fyrirspurnir frá græjukörlum hvaða raftæki við erum með.

Við erum með.

6 stk EOS 500 Canon myndavélar.

1 stk EOS 1000 Canon myndavél

1 stk Canon super zoom 115 myndavél.

1 stk Canon prima mini myndavél.

1 stk Olympus AF – 1 myndavél.

1 stk Kodak DC -200 Digital myndavél með stafrænum glugga.

1 stk Panasonic 3ccd 3 flögu Digital myndbandsupptökuvél.

1 stk JVC Digital Myndbandsupptökuvél.

1 stk Omnibook 800 Fartölva.

1 stk Inmarsat gervihnattasími.

2 stk Motorola Visar talstöðvar.

1 stk Motorola Radius talstöð.

Við notum Duracell rafhlöður fyrir ljós.  Kodak rafhlöður fyrir myndavélarnar.  Við erum með sérstakar rafhlöður fyrir talstöðvar og myndbandstökuvélar.  Þær duga lengur og eru betri í kulda.  Símann og tölvuna hlöðum við með sólarsellum.

Kveðja Landsímaleiðangurinn.

 

16. október 1998 09:10

Subjegt:  Frá Landssímaleiðangrinum 16.10 1998

Hæ hæ

Ja ég veit eiginlega ekki hvernig ég á að byrja þennan pistil þar sem ég og Svenni sitjum hér og brosum út af eyrum.  Jú það er ærin ástæða til, því Damian var að draga upp fjórar gerðir af svissneskum ostum, ljúffenga salami pylsu, reykt jakuxakjöt, reykta spánska gæða skinku, Parma skinku og sterkt franskt sinnep.  Einnig fylgdi þessu andalifrapaté.  Á móti þessu drógum við Íslendingarnir upp gæða harðfisk og sérbrennt kaffi frá Te & Kaffi.  Yfir þessum kræsingum sátu ég og Sveinn á meðan strákarnir okkar fengu frostþurrkaðan mat uppi  á búðum 1 en þeir sváfu þar í nótt.  Svo ég segi aðeins frá Damian.  Damian er hér á vegum OTT-expedition en hann er einnig í klifurliði The North Face.  Hann prófar mikið af þeim vörum sem The North Face hannar og setur út á þær áður en vörurnar fara á markað.  Það er skemmtilegt frá því að segja að spánska skinkan sem hann bauð okkur upp á fékk hann frá tveim Spánverjum sem hann bjargaði niður af Chu Oyu (8201m) fyrir stuttu.  Damian hefur atvinnu af klifri, háfjalamennsku og leiðsögn.  Hann hefur samt mest gaman af klifri í stórum veggjum og er hann á leiðinni til Pakistan að klifra þar stóran klettavegg sem heitir Trango Tower.  Ekki er hægt að segja að lífið brosi við öllum hér í grunnbúðum þó vistin hér sé framar öllum vonum.  Í dag hélt einn Bandaríkjamaður sem hafði ætlað sér að klifra Ama Dablam niður til Lukla til að ná flugi til Kathmandu.  Hann hafði fengið mjög slæma matareitrun og var búinn að vera með niðurgang í rúmlega viku og var því farið að fylgja innvortis blæðingar.

En víkjum nú að strákunum.  Þeir fóru í gær í búðir 2. Búðir 2 eru í 6100 metra hæð.  Þær eru í raun einungis birgðastöð.  Búnaði er komið þar fyrir til þess að þurfa ekki að bera hann jafn langt í dag.  Á meðan sitjum ég og Sveinn hér og sötrum kaffið okkar, nögum harðfisk og hlustum á Bubba.

Kveðja úr Grunnbúðum

Pálmi

 

18. október 1998

Subjegt:  Frá Landsímaleiðangrinum 18.10.1998

Hæ hæ

Jæja nú eru drengirnir lagðir afstað í lokaatlöguna.  Áætlunin breyttist lítileiga og í staðin fyrir að leggja af stað á morgun í lokaatlöguna þá lögðu strákarnir af stað í dag.  Það var ákveðið að leggja af stað í dag vegna þess að menn eru vel aðlagaðir og vel hvíldir.  Þess vegna var ekki talin ástæða til þess að bíða eitthvað frekar með lokaatlöguna.  Strákarnir eru nú á leið upp í búðir 1.  Þar koma þeir til með að sofa í nótt.  Á morgun kljást þeir e.t.v. við hvað erfiðast hluta leiðarinnar.  Það er leiðin frá búðum 1 og til búða 3.  Þessi leið liggur eftir mjóum klettahrygg og á stöku stað þurfa þeir að klifra upp stutt klettahöft sem getur reynst þrautin þyngri í plastskóm og í rúmlega 6000 metra hæð.  Búðir 3 eru staðsettar uppi á íshafti rétt fyrir neðan Dablam jökulinn.  Þar sofa þeir aðfaranótt þriðjudags.  Eftir að upp í þriðju búðir er komið er aðeins ein snjóbrekka eftir upp á topp og er áætlað að sú leið taki um 4-5 klst.  Ef allt gengur eftir áætlun þá ættu strákarnir að standa á toppnum á þriðjudagsmorgun.  En eins og allir vita þá spilar veður stóran þátt í fjallamennsku og vonum við því að það eigi eftir að haldast gott næstu daga til að uppskriftin gangi upp.  En af mér og Sveini er allt gott að frétta og höfum við verið að dunda okkur við að klifra í stórum granít steinum sem eru hér um allt.

Hraðametið á Everest var slegið nú firir nokkrum dögum og var Sherpinn 20klst og 41 mín frá grunnbúðum og á toppinn.  Hann klifraði súrefnislaust.

Kveðja úr grunnbúðum

Pálmi og Sveinn

 

19. október 1998 17:11

Subject:  Frá Landsímaleiðangrinum 19.10.98

Í nótt snjóaði mjög mikið.  Þannig það hefur gert strákunum erfitt fyrir á leið sinni upp í þriðju búðir.  Þegar við töluðum við þá í gegnum talstöð í hádeginu voru þeir staddir í öðrum búðum.  Vegna snjókomunnar er leiðin milli fyrstu búða og annarra búða mjög hál.  Því að þarna á milli er mjög stórgrýtt og þegar snjór er yfir þessu er þetta mjög erfitt yfirferðar og það á plastskóm.  Þegar við töluðum við þá sögðu þeir að það væri nánast enginn á ferðinni því aðstæður væru mjög erfiðar.   Þeir reiknuðu með því að eiga þriggja tíma ferð upp í þriðju búðir.  En leiðinni er þó nokkuð mikið klifur.  Mesta klifrið á fjallinu er á milli fyrstu og þriðjubúða.  Það eru þarna tveir svokallaðir turnar sem heita Yellowtower og Graytower.

Yellowtower er milli fyrstu og annarra búða og Graytower er milli annarra búða og þriðjubúða.  Þetta eru ljóðrétt klettahöft sem eru erfið yfirferðar sértaklega eftir snjókoma eins og var í nótt.  Menn mæðast mjög mikið við að klifra svona höft þegar í svona mikla hæð er komið.  Því það er muna minna súrefni í loftinu þegar ofar dregur.  Þegar við töluðum við þá voru þeir hinir bröttustu og ætluðu að koma sér upp í þriðju búðir í dag

Kveðja Landsímaleiðangurinn.

 

19. október 1998 23:02

Subject:  Frá Landssímaleiðangrinum  19.10.1998

Núna rétt í þessu vorum við að tala við strákana.  Þeir voru að koma í búðir 3 eftir langan og erfiðan dag.  Allir voru hressir og kátir en þreyttir.

Þeir voru búnir að koma sér fyrir í tjöldum og voru að byrja að elda sér kvöldmat.  Veðrið var ekkert sérstaklega gott.  Það var skafrenningur og nokkuð hvasst. Það er í raun eðlilegt fyrir veðurfarið hér á slóðum.  Á morgnana kemur sólin upp kl 5:30 og þá er yfirleit heiðskírt.  Það byrjar ekki að þykkna upp fyrr en um það bil  eitt leitið.  Strákarnir ætla sé að halda af stað á toppinn um klukkan 5:00.  Þá er að byrja að birta og hlýna eftir annars kalda nótt.  Leiðin frá búðum 3 og upp á topp tekur um það bil. 4-5 klst. Þannig að þeir ættu að standa á toppnum milli klukkan 9:00 til 10:00 að nepölskum tíma.  Ásamt strákunum munu Nick leiðangursstjóri og hinn frægi Sherpi Babu fara á toppinn.  Þannig að strákarnir gætu varla verið í öruggari höndum.  Það má til gamans geta að Babu hefur farið 7 sinnum á topp Everest- fjalls og í öll skiptin súrefnislaus.  En þegar á toppinn er komið er leiðin aðeins hálfnuð því leiðin niður þykir oft erfiðari en uppleiðin.

Það er vegna þess að menn nota oft allt sitt þrek til að komast á toppinn.  Síðan þegar á toppinn er komið verður spennufall og þreytan brýst út.  Þannig að það er alveg óhætt að segja að leiðin sé aðeins hálfnuð þegar toppnum hefur verið náð.  En allir eru strákarnir í góðu formi þannig að þetta ætti ekki að koma að sök.

Kveðja úr grunnbúðum

Pálmi og Sveinn

 

20. október 1998 14:48

Subjegt:  Toppnum hefur verið náð

Toppnum var náð nákvæmlega klukkan 9:03 að nepölskum tíma.  Allir voru hressir og réðu sér varla fyrir kæti.  Veðrið var eins og best var á kosið.  Léttskýjað og lítill vindur.  Menn eru nú að njóta þessa einstaka útsýnis sem þarna er.  Strákarnir voru einir á tindinum í dag.  Enginn annar leiðangur lagði á fjallið.  Allt hefur gengið eins og í sögu og strákarnir eru hreinlega að slá í gegn hérna.  Við heyrðum síðast í þeim þar sem þeir voru í búðum 3 og stefndu þeir á að koma niður í grunnbúðir undir kvöldmat.

 

20. október 1998 23:20

Subjegt:  Fréttir frá Landssímaleiðangrinum

Jæja nú eru strákarnir allir komnir heilir á húfi niður í grunnbúðir.  Menn eru almennt mjög þreytir en ekki það þreyttir að hér er skálað fyrir sigrinum.  Næstu daga munu menn hvílast áður en haldið verður niður til Lukla.  Leiðangursmenn biðja að heilsa öllum heima og vilja þakka öllum sem hafa haft trú á þeim og lagt þeim lið í að ná þessu takmarki

Kveðja Leiðangursmenn

 

28 október 1998 14:34

Subject:  Frá Landssímaleiðangurinn.  28.10‘98

Jæja þá látum við loks heyra í okkur.

Við erum nú staddir í Kathmandu eftir nokkuð hraða göngu úr grunnbúðum og niður til Lukla.  Það má nú með sanni segja að við vorum nokkuð heppnir að hafa náð þangað í tíma því þegar við komum til Lukla var okkur sagt að þyrla með þrjá menn innanborðs hafi horfið einhverstaðar milli Lukla og Jiri.  Andrúmslofrið var nokkuð rafmagnað þar sem þetta er ekki stórt samfélag og flestir þekkja hvern annan,  annar atburður átti sér stað var hinn óhugnanlegasti, þegar við vorum nýlagðir af stað frá Pangboche varð maður fyrir því að Yak uxi stakk hann í kviðinn með hornunum og lést hann samstundis þannig að aldrei er of varlega farið.  En staðan núna í Lukla er sú að um 300-500 manns bíða eftir flugi til Kathmandu og er útlitið allt annað en gott, þannig að við erum sáttir við að vera komnir hingað til Kathmandu eina sem vantar er að hluti af farangri okkar er enn fastur í Lukla.  Annars er af okkur allt gott að frétta, á morgun munum við fara í fjögurra tíma bílferð vestur af Kathmandu þar sem tekur við tveggja daga sigling niður eina af hinum glæsilegu ám hér í Nepal.  Þann 4 nóvember fljúgum við frá Kathmandu til Rómar þar sem við munum þann 9 nóv. fljúga heim með flugfélaginu Atlanta.  Það er mikil ánægja innan hópsins með hvernig til tókst og erum við sérstaklega þakklátir Landssíma Íslands fyrir að gefa okkur það tækifæri að geta bæði upplýst Íslensku þjóðina um það sem við vorum að gera auk þess að hafa þann möguleika að geta verið í sambandi við ástvini okkar heima á Íslandi.  Fatnaðurinn sem við notuðum á fjallinu sem við leiðangursmenn aðstoðuðum 66° Norður við að hanna reyndist i alla staði mjög vel, bæði sterkur og áræðnilegur.  Slysavarnafélag Íslands berum við einnig sérstakar þakkir, og öllum þeim sem studdu við bakið á okkur.

Bestu kveðjur frá Landssímaleiðangrinum í Nepal.

Hlökkum til þess að stíga aftur á Íslenska jörðu.

Leiðangursmenn.

 

 

 

Margar af þessum myndum eru í lélegri upplausn enda stafræna myndatæknin rétt að ryðja sér til rúms á þessum tíma.

Leiðangursmenn á Kala pattar.  Ama Dablam í baksýn
Við erum á Kala Pattar. Kala pattar er vinsæll trekkingtindur og notuðum við hann til aðlögunar. Mjg gott útsýni er frá Kala Pattar að Mt. everest, Mt. Pumo Ri og Mt. Ama Dablam

 

Þarna má sjá langt ofan í dal
Símon á Sveppahrygginum svokallaða á milli búða 2 og 3
Toppurinn á Ama Dablam var kærkominn
20 októmber 1998 á 6856m háum tindi Ama Dablam . frá vinstri Valgarður Sæmundson, Júlíus Gunnarsson, Örvar Atli Þorgeirsson . Árni Eðvaldsson og Símon Halldórsson halda á milli sín Íslenska fánanum
Umfjöllun í Morgunblaðinu 26 ágúst 1998

One thought on “Ama Dablam leiðangurinn 1998

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: